4.9.2007 | 20:46
Ó, ó, óbyggðaferð . . .
Um síðustu helgi fórum við hjónin í ferð norður í land á okkar fjallabíl (óbreyttur Toyota-jeppi) sem er nú kannski ekki í frásögu færandi nema að í för með okkur voru fóstursonur minn og vinur hans sem báðir eru miklir áhugamenn um alls kyns veiðiskap, já og rúmlega það, þeir eru með algjöra veiðidellu bara svo það sé á hreinu. Þegar norður er komið þá er veiðidellan heldur betur farin að segja til sín hjá drengjunum og það er fengið leyfi hjá landeigenda nokkrum að fá að aka torfarinn vegslóða til að komast upp að ákveðnu veiðivatni. Þetta leit nú kannski ekki svo illa út í fyrstu en tók smá saman að versna og það fór heldur betur að reyna á kunnáttu undirritaðs á akstri utan vega. Óbreytti Land-Cruiser-inn hafði aldrei lent í öðru eins og fékk að reyna sig í háa og lágadrifinu til skiptis. Með herkjum og um leið mikilli hvatningu farþega tókst mér að koma okkur að veiðistaðnum. Drengirnir hentust út úr bílnum með stangirnar og hlupu í átt að vatninu. Á meðan þeir tóku nokkur köst naut ég þess að slaka á og fá mér rjúkandi kaffibolla út í Guðs grænni náttúrunni. Það var nefnilega búið að hugsa fyrir öllu, taka með nesti, kaffi á brúsa, flatkökur með hangi og alles. Ég hugsaði hvað þetta væri nú frábært líf og hversu góður fjallabílstjóri ég væri að koma okkur yfir þessar ófærur en var samt ekki alveg rólegur þar sem ég átti jú eftir að komast yfir sömu ófærurnar til baka. Frúin fór út í móa að tína ber og skömmu síðar komu drengirnir glaðbeittir til baka og að sjálfsögðu með fisk .Allir voru sáttir með lífið og tilveruna. Nú var allt tilbúið fyrir heimferðina og cruiser-inn settur í lágadrifið. Við vorum ekki búin að aka nema í 5 mínútur þegar við komum að fyrstu ófærunni og það var mjög tæpt að við kæmust yfir. Enn og aftur sýndi undirritaður frábær tilþrif og komst yfir í annari atrennu. Aftur kom að ófæru og það rétt náðist að bakka upp úr því. Þegar þarna er komið var ákveðið að farþegarnir færu úr bílnum til að létta hann aðeins þar sem framundan var greinilega erfiðasti kaflinn. Ég bakkaði aðeins, setti í háa-drifið og rótaði bílnum áfram yfir fyrri festustaðinn sem ég slapp núna yfir og ákvað svo að beygja rétt aðeins til vinstri við næstu ófæru, sem ég hefði alls ekki átt að gera, því allt í einu er fjallabíllinn minn kominn á bólakaf í drullu og pikkfastur. Þarna breyttist nú aðeins stemningin hjá "bílstjóranum" og það var alveg ljóst að við gátum ekkert haggað bílnum. Upp á miðri heiði, símasambandslaust, komið dumbungsveður og liðið fram að kvöldmat. Þetta var nú ekki alveg að henta mér og ég byrjaði í huganum að tjakka um viðbrögð bænda eða þeirra sem yrðu beðnir um veita okkur aðstoð. Ekki gott, ekki gott hugsaði ég. Veiði-drengirnir (drengirnir er rúmlega tvítugir að aldri) tóku þessu létt enda ennþá í sæluvímu eftir veiðina. Ekkert mál, sögðust bara hlaupa þetta að næsta bæ sem er í u.þ.b. 10 km fjarlægð og ná í aðstoð. Þetta var nú bara til að gera veiðiferðina meira spennandi fyrir þá um leið og ég fór að reikna út hvenær aðstoðin bærist og spá í hvernig bíll kæmi, hvort hann yrði ekki örugglega á nógu stórum dekkjum og hvort viðkomandi þætti þetta nú ekki algjör klaufaskapur hjá mér. Allar þessar áhyggjur reyndust síðan gjörsamlega óþarfar, því hálftíma fyrr en ég hafði reiknað með, barst hjálpin. Þarna var mættur mikill öðlingur úr sveitinni sem fannst það nú ekki mikið mál að skutlast upp á heiði og kippa okkur upp. Hann var ekkert nema jákvæðnin og hjálpsemin. Það tókst í 3ju atrennu að ná "fjallabíl" borgafólksins upp úr festunni og nú þegar er búið að ákveða að senda þessum bjargvætti okkar sérstaka þakkargjöf. Síðan rétt þegar við erum að lögð af stað áfram niður heiðina þá mæta tveir aðrir jeppar úr sveitinni sem höfðu frétt af vandræðum okkar og vildu koma að aðstoða. Það var sama viðmótið sem við mættum hjá þeim, glaðværð og hjálsemi. Þvílíkt toppfólk sem býr í sveitum þessa lands, ég segi nú ekki meira. Það hefur greinilega góð áhrif á mannfólkið að vera í svona nánu og góðu sambandi við náttúruna. Það verður hins vegar einhver bið á því að lagt verði upp í svona óbyggðaferð á óbreyttum Cruiser . . .
Tek það fram að myndin hér til hliðar var ekki tekin í uræddri ferð heldur er fengin að láni af veraldarvefnum, tekin rétt fyrir utan Moskvu borg og af annari fjölskyldu.
Tek það fram að myndin hér til hliðar var ekki tekin í uræddri ferð heldur er fengin að láni af veraldarvefnum, tekin rétt fyrir utan Moskvu borg og af annari fjölskyldu.
Athugasemdir
Sæll bróðir!
Gaman að heyra frá þér á blogginu. Er lífið að fara vel með þig?
Kveðja frá Esbjerg - IJ
Ingvar Jónsson, 4.9.2007 kl. 21:08
Sæll sömuleiðis. Ég hef sjaldan verið betri og takk fyrir innlitið á síðuna. Sjáumst vonandi fljótlega.
Grétar Örvarsson, 5.9.2007 kl. 01:11
ha ha ha ha ha ha ha ha þú ert nú líka alinn upp á flatlendi Hornafjarðar ha ha ha hefði viljað sjá þig.
Þú hefur örugglega verið á blankskóm líka.
Nei nei ok hættur að grínast....en þetta er einmitt málið, úti á landi þykir ekkert tiltökumál að hjálpast að.
Hér festast menn með reglulegu millibili á FJarðarheiði yfir vetrarmánuðina og þykir það ekkert stórmál .....þetta bara gerist.
Einar Bragi Bragason., 5.9.2007 kl. 22:14
Ég þekki tilfinninguna að festast í óbyggðum. Og það er rétt hjá þér: Toppfólk í sveitinni. Kveðja
Eyþór Árnason, 6.9.2007 kl. 23:33
Ég hef samt mestar áhyggjur af gjöfinni!!!!! Ef ykkur vantar hugmyndir þá er ég til staðar Á t.d. lítið notaða en áður mikið notaða netakúlu. Hún er ...... tja bara alveg einstök.
Guðný Helga Herbertsdóttir, 8.9.2007 kl. 08:16
Stórskemmtileg saga, en trúlega hefur þetta verið sæmilegt rall meðan á stóð. Það eru allir hjálpsamir í dreifbýlinu. Svona sögur lifa líka áratugum saman og áður en veturinn er liðinn verður þú örugglega á blankskóm og í jakkafötum .
En gott að þetta fór nú allt vel og vona ég bara að hún Ingibjörg hafi náð sé í eitthvað af berjum til að sulta.
Herdís Sigurjónsdóttir, 9.9.2007 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.