Færsluflokkur: Bloggar

Úrslitin ráðast á morgun.

Stemningin í Eurovision er að ná hámarki og þjóðþekktir einstaklingar farnir að spá í úrslitin og sumir hverjir farnir að taka þátt í skipulagðri markaðssetningu eins lagsins í keppninni. Ég hef nú séð ýmislegt í kringum þessa forkeppni í gegnum árin en ekkert í líkingu við það sem á sér stað þessa dagana og þeir sem vilja keppa um þetta á jafnréttisgrundvelli átta sig eðlilega ekki á hvaða leikreglur eru í gangi þetta árið, ef þær eru þá nokkrar. Og nú er það mat nokkurra af helstu eurovision-spekingum landsins að valið standi á milli hóps kraftlyftingamanna sem hafa í liði sínu unga söngkonu og síðan forsprakka Eurobandsins þeirra Friðriks og Regínu. This is my life eða hey hey hey. En gleymum því ekki að það eru 8 góð lög í úrslitum með frábærum flytjendum sem munu bítast um atkvæðin. Ég tek undir með ónefndum eurovision-spekulant sem telur að úrslitin muni ráðist af því hvernig lögin verða flutt á morgun og hvetur fólk til þess að ákveða sig ekki fyrr en eftir þann flutning þegar það mun koma í ljós hverjir ráða við slíkt og er treystandi til að keppa fyrir hönd þjóðarinnar og vera okkur til sóma í Serbíu.


Aldarminning

AmmaFyrir nokkrum dögum komum við saman stórfjölskyldan og áttum saman yndislega stund er við minntumst formóður okkar Signýjar Benediktu Gunnarsdóttur ljósmóður frá Höfn í Hornafirði. Við heiðruðum minningu hennar í tali og með myndum og tónum. Það var hún amma Signý sem kenndi mér fyrstu nóturnar við píanóið á Þinghólnum og hvatti mig til að læra tónlist. Hún var glæsileg, smekkleg og eftirminnileg kona. Ég finn það betur með aldrinum hvað hún hefur haft sterk áhrif á okkur afkomendur sína. Blessuð sé minning hennar.

Anger management

Lögreglan í Kópavogi er greinilega ekki í vandræðum með úrlausnir á hinum ótrúlegustu uppákomum. Nú bjóða þeir upp á þjónustu sem hægt væri að flokka undir "anger management"  Það er einfaldleg keyrt með þig í Heiðmörkina og þú látinn öskra úr þér reiðina og þá átt þú að sofna á eftir eins og ungabarn. Mér fannst þetta alveg frábært hjá þeim.

Kíkið á greinina : 

http://www.visir.is/article/20071019/FRETTIR01/71019003

screaming_womansmall1

 


Bush fékk að vita af málinu . . .

bush_worstdisasterHvað getur maður sagt um þessar mannvitsbrekkur í Bandaríkjaher ?
mbl.is Flaug með virkar kjarnorkusprengur yfir þver Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó, ó, óbyggðaferð . . .

Um síðustu helgi fórum við hjónin í ferð norður í land á okkar fjallabíl (óbreyttur Toyota-jeppi) sem er nú kannski ekki í frásögu færandi nema að í för með okkur voru fóstursonur minn og vinur hans sem báðir eru miklir áhugamenn um alls kyns veiðiskap, já og rúmlega það, þeir eru með algjöra veiðidellu bara svo það sé á hreinu. Þegar norður er komið þá er veiðidellan heldur betur farin að segja til sín hjá drengjunum og það er fengið leyfi hjá landeigenda nokkrum að fá að aka torfarinn vegslóða til að komast upp að ákveðnu veiðivatni. Þetta leit nú kannski ekki svo illa út í fyrstu en tók smá saman að versna og það fór heldur betur að reyna á kunnáttu undirritaðs á akstri utan vega. Óbreytti Land-Cruiser-inn hafði aldrei lent í öðru eins og fékk að reyna sig í háa og lágadrifinu til skiptis. Með herkjum og um leið mikilli hvatningu farþega tókst mér að koma okkur að veiðistaðnum. Drengirnir hentust út úr bílnum með stangirnar og hlupu í átt að vatninu. Á meðan þeir tóku nokkur köst naut ég þess að slaka á og fá mér rjúkandi kaffibolla út í Guðs grænni náttúrunni. Það var nefnilega búið að hugsa fyrir öllu, taka með nesti, kaffi á brúsa, flatkökur með hangi og alles. Ég hugsaði hvað þetta væri nú frábært líf og hversu góður fjallabílstjóri ég væri að koma okkur yfir þessar ófærur en var samt ekki alveg rólegur þar sem ég átti jú eftir að komast yfir sömu ófærurnar til baka. Frúin fór út í móa að tína ber og skömmu síðar komu drengirnir glaðbeittir til baka og að sjálfsögðu með fisk .Allir voru sáttir með lífið og tilveruna. Nú var  allt tilbúið fyrir heimferðina og cruiser-inn settur í lágadrifið. Við vorum ekki búin að aka nema í 5 mínútur þegar við komum að fyrstu ófærunni og það var mjög tæpt að við kæmust yfir. Enn og aftur sýndi undirritaður frábær tilþrif og komst yfir í annari atrennu. Aftur kom að ófæru og það rétt náðist að bakka upp úr því. Þegar þarna er komið var ákveðið að farþegarnir færu úr bílnum til að létta hann aðeins þar sem framundan var greinilega erfiðasti kaflinn. Ég bakkaði aðeins, setti í háa-drifið og rótaði bílnum áfram yfir fyrri festustaðinn sem ég slapp núna yfir og ákvað svo að beygja rétt aðeins til vinstri við næstu ófæru, sem ég hefði alls ekki átt að gera, því allt í einu er fjallabíllinn minn kominn á bólakaf í drullu og pikkfastur. Þarna breyttist nú aðeins stemningin hjá "bílstjóranum" og það var alveg ljóst að við gátum ekkert haggað bílnum. Upp á miðri heiði, símasambandslaust, komið dumbungsveður og liðið fram að kvöldmat. Þetta var nú ekki alveg að henta mér og ég byrjaði í huganum að tjakka um viðbrögð bænda eða þeirra sem yrðu beðnir um veita okkur aðstoð. Ekki gott, ekki gott hugsaði ég. Veiði-drengirnir (drengirnir er rúmlega tvítugir að aldri) tóku þessu létt enda ennþá í sæluvímu eftir veiðina. Ekkert mál, sögðust bara hlaupa þetta að næsta bæ sem er í u.þ.b. 10 km fjarlægð og ná í aðstoð. Þetta var nú bara til að gera veiðiferðina meira spennandi fyrir þá um leið og ég fór að reikna út hvenær aðstoðin bærist og spá í hvernig bíll kæmi, hvort hann yrði ekki örugglega á nógu stórum dekkjum og hvort viðkomandi þætti þetta nú ekki algjör klaufaskapur hjá mér.  Allar þessar áhyggjur reyndust síðan gjörsamlega óþarfar, því hálftíma fyrr en ég hafði reiknað með, barst hjálpin. Þarna var mættur mikill öðlingur úr sveitinni  sem fannst það nú ekki mikið mál að skutlast upp á heiði og kippa okkur upp. Hann var ekkert nema jákvæðnin og hjálpsemin. Það tókst í 3ju atrennu að ná "fjallabíl" borgafólksins upp úr festunni og nú þegar er búið að ákveða að senda þessum bjargvætti okkar sérstaka þakkargjöf. Síðan rétt þegar við erum að lögð af stað áfram niður heiðina þá mæta tveir aðrir jeppar úr sveitinni sem höfðu frétt af vandræðum okkar og vildu koma að aðstoða. Það var sama viðmótið sem við mættum hjá þeim, glaðværð og hjálsemi. Þvílíkt toppfólk sem býr í sveitum þessa lands, ég segi nú ekki meira. Það hefur greinilega góð áhrif á mannfólkið að vera í svona nánu og góðu sambandi við náttúruna.  Það verður hins vegar einhver bið á því að lagt verði upp í svona óbyggðaferð á óbreyttum Cruiser . . .
Tek það fram að myndin hér til hliðar var ekki tekin í uræddri ferð heldur er fengin að láni af veraldarvefnum, tekin rétt fyrir utan Moskvu borg og af annari fjölskyldu.



Elvis lifir

Við hjónin fórum á stórskemmtilega tónleika í Salnum í gærkvöldi sem hinn frábæri ungi söngvari Friðrik Ómar stóð fyrir í tilefni að þrjátíu ár eru liðin frá því Elvis Presley lést á heimili sínu "Graceland" í Memphis Tennessee. Það var valin maður í hverju rúmi í hljómsveitinni og 3 gullfallegar bakraddasöngkonur sem fengu einnig að spreyta sig á völdum Elvis-lögum. Margrét Eir vakti t.d. mikla lukku með frumlegan flutning sinn og Róberts Þórhalssonar bassaleikara á laginu "devil in disquise"  Björgvin Halldórsson átti líka kröftuga innkomu á tónleikana og greinilegt hver hefur verið einn af hans áhrifavöldum. Bandið var mjög þétt og hljómurinn í salnum hentugur fyrir slíka tónleika þó að sætin mættu auðvitað vera fleiri, en uppselt var á tvenna tónleika í gær og fjölmargir á biðlista.  Þó svo að aðalsöngvari kvöldsins hafi ekki einu sinni verið fæddur þegar rokkgoðið féll frá aðeins 42 ára gamall, þá kunni Dalvíkingurinn knái þetta allt upp á hár og túlkaði lögin á sinn hátt án þess að vera nokkuð að herma eftir söng Elvis . Friðrik er líka mjög mikill húmoristi og það setti skemmtilegan blæ á tónleikana hversu vel hann kom fyrir sig orði við kynningar laga og á listamönnum kvöldsins, þá ekki síst gerir hann oft grín að sjálfum sér og það var mikið hlegið í salnum í gærkvöldi.  Elvis hafði mikil áhrif á margan hátt og er einn stærsti tónlistarmaður í sögu rokksins. Ég vil þakka Friðriki Ómari fyrir þetta frábæra framtak í virðingarskyni við kónginn og hvet hann til að endurtaka tónleikana sem allra fyrst í stærra húsi.

Ekkert hafði raunveruleg áhrif á mig fyrr en ég heyrði í Elvis. Ef Elvis hefði ekki komið til hefðu Bítlarnir aldrei orðið til.    -John Lennon


Ung og efnileg söngkona

Hún fór nú bara með vélinni seinnipartinn í dag hún Gréta mín og ég strax farinn að sakna hennar. Þessi yndislega og fallega dóttir mín er að láta einn af draumum sínum rætast og byrjar í söngnámi "complete vocal technique" hjá Cathrine Sadolin í Kaupmannahöfn núna í ágúst. Hún hefur svo sem ekkert verið að flíka þessum sönghæfileikum sínum og alltaf verið frekar feimin að leyfa pabba sínum að heyra í sér (nema þegar hún lætur pabba sinn heyra´ða) En í gærkvöldi hélt hún kveðjuhóf fyrir vini og kunningja og þá steig mín á sviðið og söng svona yndislega fyrir okkur. Ég er hreykinn af þér elsku Gréta Karen mín og hlakka til að kíkja í heimsókn til þín í haust.

Hvar var allt fólkið ?

Það er greinilegt miðað við fréttir af umferðinni og fjölda fólks á skipulögðum útihátíðum um nýafstaðna verslunarmannahelgi að áherslur fólks eru mikið að breytast hvað þetta varðar.  Akureyrarhátíðin "ein með öllu" var einungis hálfdrættingur miðað við fyrri ár og sama átti víst við um neistaflugið á Neskaupstað og síldarævintýrið á Siglufirði svo fátt eitt sé nefnt. Samt var engin hátíð hjá templurum í Galtalækjarskógi þetta árið sem neyddust til að selja þessa perlu sína vegna uppsafnaðra skulda vegna hátíða síðustu ára, þó með framsæknustu umboðsmenn landsins sem ráðgjafa í þeim efnum. . . Hver er svo skýringin, eru skemmtikraftarnir ekki nógu spennandi eða aldurstakmarkið á tjaldstæðin ósanngjarnt eða er það veðrið ?  Þjóðhátíð eyjamanna stendur þó alltaf fyrir sínu og virðist þá engu skipta hverju "Stormurinn" er að spá með veðrið eða hvort Árni eða Róbert á að sjá um brekkusönginn. Fólk veit nákvæmlega að hverju það gengur hjá eyjamönnum sem eru líka að mestu sammála um hvernig standa skuli að herlegheitunum. Þar er vel tekið á móti þér hvort heldur þú ert átján ára eða áttræður. Sem sagt mjög einföld uppskrift hjá Eyjamönnum ; nánast eins frá ári til árs og allir velkomnir. Einnig var frábær fréttin um húsfreyjuna í eyjum sem eldar alltaf ógrynni af kjötsúpu og bíður gestum og gangandi að njóta, alltaf sama uppskriftin. Ekki má gleyma unglingalandsmótinu sem fór víst einstaklega vel fram í faðmi fjallahringsins á Höfn. Hvar var þá allt hitt fólkið ? Miðað við þá sprengingu sem hefur átt sér stað í sölu á húsbílum, felli og hjólhýsum þá gefur það auga leið að fólk hefur safnaðist saman í smærri og stærri hópum með allar nýju græjurnar á þar til gerðum áningastöðum víðs vegar um landið. Sumir meira að segja búnir að skýra nýju húsbílana sína. Þekki einn sem heitir Karl og á fellihýsi og er að spá í að skýra það "Karlsvagninn"

Stóra verslunarmannahelgarlægðin

Sem betur fer ætlar ekki að verða eins mikið úr þessari "verslunarmannahelgarlægð" og leit út í fyrstu. Ég veðurfréttanördinn hef verið að fylgjast með lægðinni undanfarna daga á öllum hugsanlegum veðurfréttavefum af þvílíkum áhuga en nú lítur þetta alveg prýðilega út, allavega fyrir okkur sem ætlum að dvelja í Skorradalnum um helgina. Í dag verður reist heljarmikið veislutjald á flötinni á svæði 2 og eftir varðeldinn og sönginn í brekkunni á laugardaginn verður fjölmennt í tjaldið þar sem undirritaður og Bjarni Ara ætlum að leika og syngja fyrir ábúendur á Vatnsendasvæðinu. Klæðum okkur bara eftir veðri og höfum gaman af þessu. Og ef þú þaft að drekka og keyra, drekktu þá bara Pepsi.

Kaupstaðarferð

Við hjónin höfum átt góðar stundir í Skorradalnum undanfarnar tvær vikur og veðrið hefur aldeilis leikið við okkur hér á suðvesturhorninu. Það er búið að bera á kofann og ditta að einu og öðru, setja niður nokkur tré og grisja aðeins birkið svo fátt eitt sé nefnt. En nú brá svo við að við þurftum að skreppa í kaupstaðarferð í gær, það var orðið tímabært að fara í klippingu og í leiðinni að sækja vistir í kaupfélagið eða "taka kostinn" eins og það var kallað hjá okkur sjókokkum hér áður fyrr . . . Það var yndislegt að koma aftur í dalinn um miðnætti í koppalogni og smá rigningarúða og anda að sér ilminum úr gróðrinum. Þetta eru forréttindi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband