7.8.2007 | 22:25
Hvar var allt fólkið ?
Það er greinilegt miðað við fréttir af umferðinni og fjölda fólks á skipulögðum útihátíðum um nýafstaðna verslunarmannahelgi að áherslur fólks eru mikið að breytast hvað þetta varðar. Akureyrarhátíðin "ein með öllu" var einungis hálfdrættingur miðað við fyrri ár og sama átti víst við um neistaflugið á Neskaupstað og síldarævintýrið á Siglufirði svo fátt eitt sé nefnt. Samt var engin hátíð hjá templurum í Galtalækjarskógi þetta árið sem neyddust til að selja þessa perlu sína vegna uppsafnaðra skulda vegna hátíða síðustu ára, þó með framsæknustu umboðsmenn landsins sem ráðgjafa í þeim efnum. . . Hver er svo skýringin, eru skemmtikraftarnir ekki nógu spennandi eða aldurstakmarkið á tjaldstæðin ósanngjarnt eða er það veðrið ? Þjóðhátíð eyjamanna stendur þó alltaf fyrir sínu og virðist þá engu skipta hverju "Stormurinn" er að spá með veðrið eða hvort Árni eða Róbert á að sjá um brekkusönginn. Fólk veit nákvæmlega að hverju það gengur hjá eyjamönnum sem eru líka að mestu sammála um hvernig standa skuli að herlegheitunum. Þar er vel tekið á móti þér hvort heldur þú ert átján ára eða áttræður. Sem sagt mjög einföld uppskrift hjá Eyjamönnum ; nánast eins frá ári til árs og allir velkomnir. Einnig var frábær fréttin um húsfreyjuna í eyjum sem eldar alltaf ógrynni af kjötsúpu og bíður gestum og gangandi að njóta, alltaf sama uppskriftin. Ekki má gleyma unglingalandsmótinu sem fór víst einstaklega vel fram í faðmi fjallahringsins á Höfn. Hvar var þá allt hitt fólkið ? Miðað við þá sprengingu sem hefur átt sér stað í sölu á húsbílum, felli og hjólhýsum þá gefur það auga leið að fólk hefur safnaðist saman í smærri og stærri hópum með allar nýju græjurnar á þar til gerðum áningastöðum víðs vegar um landið. Sumir meira að segja búnir að skýra nýju húsbílana sína. Þekki einn sem heitir Karl og á fellihýsi og er að spá í að skýra það "Karlsvagninn"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.